Leikskólastarfsemi í Neskaupstað á sér 50 ára sögu en í upphafi var leikskólinn starfræktur í barnaskólanum yfir sumartímann. Húsnæði leikskólans var byggt sem fjögurra deilda leikskóli, þ.e. tvær heilsdagsdeildir og tvær hálfsdagsdeildir og var þá enginn salur eða annað rými fyrir börnin annað en það sem var inni á deildum. Fyrstu þrjár einingar leikskólans voru teknar í notkun árið 1970 og var leikskólinn aðeins rekinn yfir sumarið en Iðnskólinn notaði skólann yfir veturinn. Einn vetur rak Fjórðungssjúkrahúsið eina deild fyrir sitt starfsfólk en einnig fyrir nokkur fleiri börn. Árið 1974 rekur bærinn leikskólann allt árið. Leikskólinn var allur endurbættur á árunum 1995-1997. Laus kennslustofa var tekin í notkun í byrjun apríl 2003 og í ágúst 2005 var opnuð deild fyrir elstu börnin á Kirkjumel í Norðfjarðarsveit.

Árið 2015 var síðan ráðist í byggingu nýs leikskóla í Neskaupstað og var nýja byggingin tekin í notkun í ágúst 2016. Nýi leikskólinn er átta deilda með blönduðum vistunartíma frá 7:30 - 16:30. Deildarnar draga nöfn sín frá ævintýrum Astrid Lindgren og þau eru Sjónarhóll, Sólbakki, Glaumbær, Ólátagarður, Kattholt, Skarkalagata, Matthíasarborg og Saltkráka. Leikskólinn er lokaður í fjórar vikur yfir sumarið vegna sumarfrís starfsfólks og barna og er tíminn ákvarðaður af fræðslu- og frístundaráði Fjarðabyggðar. Starfsdagarnir eru sex yfir skólaárið og er þá lokað.

Einkunnarorð leikskólans eru: Leikur – Gleði - Nám

Leikskólastjóri er Sigurlaug Björk Birgisdóttir

Aðstoðarleikskólastjóri er Jóhanna Smáradóttir